Ullarþvottur

Ullarsel 052

Þvottur á ullarreyfi

Til staðar þarf að vera mikið rennandi vatn, bæði heitt og kalt og gott niðurfall, ullarþvottaefni eða hársjampó. Gott er að nota eggjasjampó. Alls ekki má nota lopasápu, hún er of sterk. Einnig þarf að vera til staðar stór bali eða baðkar og hitamælir.

Tínið úr ullinni allt sjáanlegt rusl. Setjið hana í grisjupoka 200 – 250 g í hvern poka.

Fyllið balann eða baðkarið af vatni 42 – 45°C nákvæmlega. Blandið 1 tappa af þvottalegi í vatnið.

Leggið reyfið í vatnið. Leggið lófann á reyfið þar til það hefur blotnað í gegn. Það má alls ekki hræra í vatninu eftir að reyfið er komið í.

Látið vera í ró í 20 mín.

Takið reyfið upp úr og látið renna af því á grind.

Blandið skolvatnið sem er u.þ.b. 2°C kaldara en reyfið. Skolið úr 1 – 2 skolvötnum. Það fer eftir því hversu óhreint reyfið er. Skolið ekki úr fleiri skolvötnum en nauðsynlegt er, því það er alltaf hætta á að ullin þófni. Gott er að setja edik eða ediksýru í síðasta skolvatnið.

Að lokum er reyfið sett í þeytivindu og undið í u.þ.b. 3 mín. Hægt er að þeytivinda í þvottavél ef hún snýst allan tímann í sömu átt og á sama hraða. Það er ekki nauðsynlegt að þeytivinda, nóg er að láta renna vel úr reyfinu.

Látið reyfið þorna sem fyrst því ullin veikist í vætu.

 

tovinna

Mjög óhreint reyfi sem er þar fyrir utan gott, er reynandi að þvo. Þó skal alltaf leitast við að vinna úr fyrsta flokks ull.
Látið nákvæmlega 42 – 45°C heitt vatn í stóran bala eða baðkar. Enga sápu. Leggið reyfið varlega í og ýtið á það til að losa loftið úr ullinni. Lokið ílátinu svo vatnið kólni eins hægt og möguleiki er á. Látið standa yfir nótt. Ullarfitan ( lanólínið ) virkar sem sápa. Skolið síðan reyfið eins og sagt er til um hér að ofan og þeytivindið.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *